Markþjálfun til að takast á við ágreining
Úps, þá er ég víst komin í enn eitt námið 😊 og núna til að fá þekkingu og vottun til að takast á við ágreining og krefjandi samskipti með markþjálfun (conflict management coaching) aðferðafræðin byggir á fræðum úr sáttamiðlun, markþjálfun og taugavísindum.
Fókusinn er bæði á ágreining sem tengist vinnu sem og í einkalífinu. En rannsóknir meðal stjórnenda sýna að þeir eru allt að 6 klst á viku að sinna málum tengdum ágreiningi og ósætti á milli starfsfólks.
Verkefni mín snúast mikið um samskipti, hvort sem það er í námskeiðshaldi, ráðgjöf eða markþjálfun. Við fólkið erum jú ólíkindatól, mismunandi læs á tilfinningar okkar og viðbrgöð og beitum ólíkum nálgunum við að hafa eða hafa ekki stjórn á tilfinningum okkar og viðbrögðum, til dæmis í ágreiningi.
Ágreiningur er það þegar við höfum ákveðnar væntingar sem tengast þörfum okkar, gildum eða viðhorfum – en upplifum að aðrir standa ekki undir þeim væntingum, okkur sárnar, við reiðumst, við upplifum að okkur sé ógnað eða gert lítið úr okkur.
Markmiðið er ekki að útrýma ágreiningi – enda er hann oft nauðsynlegur drifkraftur og kveikja góðra ákvarðana – hins vegar getum við æft okkur og lært hvernig við höndlum og bregðumst við honum.
Hlakka mikið til að fara á fullt að styðja fólk og fyrirtæki við að takast á við ágreining – við og heimurinn þurfum á því að halda að vanda okkur og skiptast á skoðunum á fallegan og faglegan máta
Markþjálfun til að takast á við ágreining gagnast til að:
- Skoða hvort, ef eitthvað, er hægt að gera varðandi ágreining sem er liðin
- Skoða hvað best er að gera til að nálgast og leysa ágreining sem er í gangi núna
- Undirbúa sig fyrir krefjandi „maður á mann“ samtal sem er framundan
- Skoða hvernig best er að nálgast aðstæður sem gætu snúist upp í ágreining og deilur
- Undirbúa það að kynna eða segja frá aðstæðum eða niðurstöðu sem er líklegt að framkalli neikvæð viðbrögð
- Til að tala sig í gegnum hugsanir og tilfinningar sem tengjast viðkvæmum samskiptum