Indriði og rassálfarnir

Við mannfólkið erum margbreytileg, óútreiknanleg á köflum og einfaldlega mögnuð og þú kæri lesandi þar á meðal. Hvað hefur þú lært um þig á þessu ári? Hverju hefur þú breytt? Hvað hefur þú tekist á við? Hverju ertu stoltust/stoltastur af?

Nú spyrð þú þig kannski hvað þessi kona vill eiginlega með öllum þessum spurningum, eðlilega. Í starfi mínu sem markþjálfi og mannauðsráðgjafi nýt ég þeirra forrréttinda að fólk treystir mér fyrir sér. Fólk  kemur til mín í samtöl og saman förum við í vegferð til að viðkomandi komist áfram með sjáflan sig, skerpi skilning, finni markmið, hvata og leiðir til að komast áfram og eitt af mínum aðalverkfærum er að spyrja spurninga. Í ævintýrinu um Ronju ræningjadóttur birtist álfategund sem nefnist rassálfar og þeir  spyrja ítrekað „af hverju?“  Hvað gerist þegar við spyrjum okkur þeirrar kröftugu spurningar, aftur og aftur og svo einu sinni enn - æfing sem ég kalla rassálfaæfinguna. Einhverjum finnst þetta auðvelt og skemmtilegt, en það sem ég rek mig oftar á er að fleirum finnst þessi æfing pirrandi, krefjandi og erfið, já ég veit. En hvað ætli valdi því? Mögulega það að þetta er sannarlega krefjandi, krefur okkur um eitthvað sem ekki liggur ljóst fyrir í huga okkar. Krefur okkur um svör sem okkur finnst við ekki hafa. Krefur okkur um það að gera eitthvað sem við erum jafnvel ekki í góðri æfingu við að gera. Krefur okkur um það að leita þessara svara hjá okkur sjálfum. Af hverju ættum við svo sem að spyrja okkur „af hverju?“ gæti einhver spurt, „á ég að gera það?“ (lesist með raddtón og látbragði Indriða úr Fóstbræðrum). Mitt svar við því er, já þú átt að gera það. Það er í „starfslýsingu“  okkar sem einstaklinga, það er á okkar ábyrgð að finna þessi svör fyrir okkur sjálf. Að leita allra tækifæra til að skilja og stýra vegferð okkar í lífinu. Vera ekki eins og dauður fiskur sem flýtur með straumnum, því það eru jú bara dauðu fiskarnir sem fljóta með straumnum, hinir eru með markmið og aðgerðarplan til að komast þangað sem þeir vilja og synda klárlega oft á móti straumnum.  Þannig að með því að krefja okkur svara getum við fært okkur skrefi nær tilgangi, sýn og hvatningu sem væri þá sannarlega okkar. Getur fært okkur nær okkar sanna og rétta svari á þeim tímapunkti sem svo getur stækkað og eflt þá upplifun að við séum við stjórnvölinn, að við séum stjórinn í eigin lífi. Hvernig stjórnandi ert þú í eigin lífi?

Í óútreiknanleika veruleikans sem við lifum þessa dagana er það dýrmætt, sem aldrei fyrr, að upplifa í einhverri mynd stjórn á eigin lífi og að við finnum fyrir því að hafa val og völd í eigin þágu. Þessi tilfinning, að upplifa stjórn á eigin lífi, er afar mikilvæg m.a. í samhengi við þrautseigju og úthald. Það að geta á einhvern máta stillt viðhorf sitt, sýn og aðgerðir inn á það að hafa val, þó það sé ekki nema bara meðvitað val um viðhorf, þegar við skiljum og vitum að ytri aðstæður, til dæmis eins þær sem við erum að lifa núna eru utan okkar áhrifahrings. Við höfum ekki stjórn á aðstæðunum, skoðunum annarra eða aðgerðum  - bara okkur sjálfum.  

 Setningin „ef þú dettur þá stendur þú upp“ hefur fylgt mér í gegnum árin, því auðvitað stöndum við upp þegar við dettum, ekki satt, ekki ætlum við bara að liggja þarna í jörðinni. Stundum þurfum við kannski að fá frið og fá að liggja í einhvern tíma, átta okkur á stöðunni, hvar erum við lent, hvar finn ég til, sá mig einhver detta ofrv. En svo, jú við stöndum upp!

Klárlega berum við okkur mis tignarlega að og stundum er það brölt og bras að koma aftur undir okkur fótunum og standa aftur nokkurn vegin upprétt. Þetta fall getur verið samlíking við alls konar, til dæmis atburð, upplifun eða tilfinningu sem við fáum í fangið og þurfum að kljást við. Eitthvað sem við völdum okkur ekkert endilega sem viðfangsefni og okkur finnst við ekki eiga haldbær tæki eða tól til að takast á við.  Eitthvað sem kemur okkur úr jafnvægi, við hrösum, við dettum eða við bognum. En sem við engu að síður veljum að takast á við og koma okkur í gegnum, standa upp með góðu eða illu, já jafnvel á blessaða hnefanum. Hvaða samlíking úr þínu lífi kemur þér í hug fyrir þig?

En hvað svo, við erum komin á lappirnar, náðum að standa upp, komast í gegnum aðstæðurnar og mótvindinn en hvað svo, ætlum við að standa áfram í sömu sporum, bíða eftir næsta áhlaupi og halda áfram að gera það sama?  Jú stundum á það við og hnefinn víst alveg gagnlegur en hvað ef það er ekki verkfærið sem virkar eitt og sér fyrir okkur sjálf til lengri tíma. Vitur maður sagði að lífið væri eins og að hjóla, að til að halda jafnvægi þá þyrftum við að halda áfram. Hvað merkir það að halda áfram?  Kannski að þá væri gagnlegt að grípa til rassálfaæfingarinnar og Indriða. Endurmeta og endurskoða hvað við viljum halda áfram að gera, hætta að gera og hvað við viljum byrja að gera. Spyrja okkur spurninga og tékka á okkur - af hverju vil ég gera þetta?  Hvernig kemur það mér áfram þangað sem ég vil komast? Taka svo Indriða á þetta líka, á ég að gera það? En mögulega með mildari tón í röddinni en hann ;-). Það merkilega, er svo að þegar upp er staðið munum við klárlega koma okkur sjálfum skemmtilega á óvart þegar við uppgötvum að við eigum þessi svör fyrir okkur sjálf, já þau eru þarna. Við þurfum bara að hlusta, hlusta á okkur, þegar við mögnum það sem í okkur býr þá eflumst við sem við sjálf.

Hvað langar mig að skilja eftir hjá þér með þessum skrifum? Já, því ég spyr sko sjálfa mig líka spurninga ;-).  Ósk mín er að þessi pistill minni á að við höfum val og völd í eigin lífi. Hversu skemmtilega krefjandi sú vegferð er að spyrja okkur spurninga og nota svörin til að teikna upp og hanna leiðina okkar og ganga hana svo skref fyrir skref. Af því sögðu þurfum við ekki endilega að kryfja allt mögulegt, alltaf, en verum meðvituð og sýnum okkur mildi um leið. Hugsum en ofhugsum ekki, eða eins og tónlistarmaðurinn Jónas Sig fjallar svo skemmtilega um í lagi sínu „Ef ég gæti hugsanna minna og ef ég gæti hugsað minna“.

Ég óska ykkur notalegrar aðventu sem ég vona að þið njótið á ykkar forsendum og í takt við það sem færir ykkur sjálfum sannarlega ánægju og gleði.

 (Pistill skrifaður fyrir jólablað Einingar Iðju des 2020)