Dagur #24 þekkingarþrá
„mér finnst gaman og áhugavert að afla mér nýrrar þekkingar og færni og dýpka og nýta hana á merkingarbæran hátt“
Þekkingarþrá (love of learning) felur það í sér að hafa ákveðna ástríðu fyrir því að læra - að læra til að læra. Þessi eiginleiki, þekkingarþrá og eiginleikinn forvitni eru nátengdir í VIA fræðunum. Það sem þó skilur eiginleikana helst að er að forvitni er hvatinn sem kemur þér af stað til að læra og ná í nýjar upplýsingar eða færni á meðan þekkingarþráin vísar meira í það að taka það skrefinu lengra, muna og dýpka vitneskjuna eða færnina. Sá forvitni er drifin áfram af þekkingarleit á meðan sá með þekkingarþrána er drifin áfram af því að auka við og dýpka þekkingu sína og hæfni. Á meðan forvinti er oftar tengd við orku og kraft við að afla upplýsinga er þekkingarþrá ferkar tengd íhugun og dýpt. Þekkingarþrá vísar til þess hvernig einstaklingurinn nýtir sér nýjar upplýsingar og færni. Kennarar vilja sjá þennan eiginleika í öllum nemendum sínum, foreldrar reyna að efla hann í börnum sínum, meðferðaraðilar styðja skjólstæðingar sína í því að nota þekkingarþrá og stjórnendur efla þennan eiginleika hjá starfsfólki sínu. þekkingarþrá er mikilvægur hvatningarþáttur sem getur hjálpað fólki að takast á við áskoranir, áföll og neikvæð viðbrögð. Þessi tenging við þrautseigjuna er meðal annars tilkomin vegna þess að sá sem er hár á þekkingarþrá fer oftar þá leið að leita upplýsinga, vill dýpka skilning sinn á því sem vitað er um aðstæðurnar og reynslu annarra. Svo er skemmtilegt hvernig þessi þáttur tengist líka því að læra af mistökum og halda áfram að reyna, því viðhorfið sem fylgir þekkingarþránni er að skoða og rýna hvað fór úrskeiðis til að hafa forsendur og þekkingu til að gera betur næst.
Rannsóknir sýna okkur, og það kemur líklega ekki á óvart að þeir sem skora hátt á þekkingarþrá hafa dýpri og breiðari þekkingar eða færni grunn sem leiðir svo aftur til meiri hæfni og skilvirkni. Einnig að þegar við eldumst og erum komin á eftilaunaaldur eru þessir aðilar virkari og afkastameiri. Lífið er einn stór lærdómur og við lifum til að læra og lærum allt lífið, eins og sagt er.
- Á hvaða sviðum hefur þú mestan áhuga á að læra meira (staðreyndir, fólk, færni eða andlegt)? En minnstan áhuga?
- Hvað elskar þú mest við það að læra?
- Hvaða áhrif hefur þekking þín, breydd og dýpt, á sambönd þín við annað fólk, bæði fólk sem hefur nýlega kynnst að þá sem eru þér nánir?
Við erum að nota þekkingarþrá okkar og áhuga á því að læra meira þegar við sækjumst eftir því að eiga góð og löng samtöl við þá sem við vitum að vita mikið um það sem við höfum áhuga á. Getum líka nýtt eiginleikan til að tengjast samstarfsfólki okkar og sýnt viðfangsefnum þeirra áhuga með því að spyrja og læra um það sem þau gera, kunna og vita. Einnig með því að taka eftir því sem er að gerast í samfélaginu okkar, ný bygging eða ný starfssemi, að skoða það og sjá og kynnast þeirra viðfangsefnum.
Að efla eiginleikann
- Rýndu og skoðaðu 5 ný orð tvisvar sinnum í viku, hvað merkja þau og hvernig eru þau notuð.
- Prufaðu að lesa í hverjum mánuði bók sem er ekki skáldskapur um efni sem þér finnst áhugavert.
- Veldu þér eitthvað samfélagslegt málefni, kynntu þér það ítarlega um hvað það snýst og þætti því tengdu. Skoðaðu svo hvort og hvernig þú getur nýtt þá þekkingu til að leggja samfélaginu lið.
Vannýting á þekkingarþorsta getur birst sem ákveðið sinnu- eða andvaraleysi á meðan ofnotkunin birtist til dæmis í því að við teljum okkur vita og þurfa að vita allt um allt og birtumst þá sem “besservisserar” eða sem yfir aðra hafin á forsendum þekkingar og færni.