STYRKLEIKAR
Við fólkið eigum alls konar eiginleika – suma þeirra köllum við styrkleika og aðra veikleika. Svo gætum við einfaldlega bara kallað þetta eiginleika - sem sumir vinna með okkur í ákveðnum aðstæðum og aðrir sem vinna síður með okkur.
Þegar við lærum kúnstina að stilla þá af, ná í þá eiginleika sem nýtast okkur helst og efla þá fáum við verðmæt verkfæri í vegferð okkar að vellíðan og árangri.
Ég hef notað og kennt um styrkleika síðust misseri, á vinnustöðum og í markþjálfun. Farið sjálf á námskeið og var núna að klára 8 vikna prógram um styrkleika og núvitund hjá Ryan Niemiec sem skrifaði bókina Mindfulness and Character Strengths og er sérfræðingur hjá VIA.
Eiginleikar VIA módelsins eru 24:
Að taka eftir og kunna að meta fegurð og snilld / Andlegt viðhorf / Eldmóður/ Ást / Dómgreind / Félagslæsi / Forvitni / Fyrirgefning / Hógværð/ Hreinskilni / Hugrekki / Húmor / Leiðtogahæfni / Námsfýsi / Sanngirni /Sjálfsagi / Sköpun / Teymisvinna / Varkárni / Velvild / Víðsýni / Bjartsýni/ Þakklæti / Þrautsegja
Núna síðustu 24 daga mars ætla ég að draga einn eiginleika af handahófi daglega, skoða hann og rýna og bjóða ykkur að vera samferða mér í þeirri vegferð og sjá hversu magnaður mars getur orðið með þeim verkfærum sem þar gætu leynst.
Ég hvet þá sem vilja skoða þetta nánar með mér að taka styrkleikaprófið hjá VIA https://www.viacharacter.org/
Ég tók þetta próf fyrst í ársbyrjun 2016 þegar var að koma aftur til vinnu eftir 8 mánaða veikindaleyfi - það merkilega við þá niðurstöðu sem blasti við mér þá var að ég var henni ansi mikið ósammála og jafnvel pínu móðguð, já ;-) Sá ekki að þetta væri svo mikið ég og sá ekki að þessi niðurstaða væri mikið að vinna með mér í mínum áskorunum. En mikið sem ég átti nú eftir að éta það ofan í mig - eða að ég hafi farið þá leið að við það að veita þessum eiginleikum athygli þá urðu þeir mikilvægir og gagnlegir mér í því sem var að kljást við. Mínir aðal eiginleikar voru sem sé: húmor, velvild, ást, leiðtogahæfni og hreinskilni.
Margt hefur verið rýnt og rannsakað í tengslum við styrkleika og hefur það meðal annars leitt í ljós að með því að veita styrkleikum athygli er hægt að auka farsæld, árangur og vellíðan. Sem sé - það er hægt að rækta styrkleika, efla og nota meira, og ekki bara manns eigin heldur annarra í kringum mann ef maður tæki einfaldlega upp á því að horfa á styrkleika annarra og efla þá um leið.
Það fólk sem finnur að það nýtir styrkleika sína í starfi er sex sinnum líklegra til að vera helgað í starfi og helgun starfsfólks hefur veruleg áhrif á framleiðni og árangur fyrirtækja og ef við tökum þetta skrefinu lengra og erum með starfsumhverfi þar sem fókus er á gefa fólki endurgjöf á styrkleika sína hækka árangursmælikvarðar enn frekar.
Þess vegna er oft talað um styrkleika sem ákveðna ofurkrafta - pælið í því !