Dagur #14 Bjartsýni

bjartsýni.jpg

„ég er raunsæ/r og á sama tíma bjartsýn/n á framtíðina og trúi því að ég geti lagt mitt af mörkum og að hlutirnir fari vel að lokum“

Bjartsýni og von snýst um það að vænta jákvæðrar útkomu og þess að góðir hlutir muni gerast, en þó ekki einfaldlega bara um það að stilla á Pollýönnu og setja upp bleiku gleraugun :-) Bjartsýni er nefnilega líka afar aðgerðarmiðaður styrkleiki þar sem fólk trúir því að það geti gert eitthvað í stöðunni og gerir það sem getur, þar liggur innri hvatning og sjálfstraust og trú á það að ná þangað sem langar að komast. Sú trú og hvatning styður svo við lausnaleit og það að vera tilbúin að prufa og rannsaka mögulegar leiðir og lausnir, og líka að mistakast og halda samt áfram. Bjartsýni og von hefur þannig sterka fylgni við það hvernig við útskýrum og túlkum það sem gerist í kringum okkur, til dæmis þegar gerum mistök. Þeir sem eru háir á þessum eiginleika, vongóðir og bjarsýnir leita í ytri aðsæður og alhæfa ekki heldur horfa á aðstæður sem einstakar og greina og meta í því samhengi. Þeir sem eru svartsýnni og lægri á þessum eiginleika eigna sjálfum sér mistök í meira mæli, sjá færri lausnir og möguleika og alhæfa frekar um ákveðin ómöguleika.

- Hvaða reynsla eða aðstæður í lífi þínu hafa stutt við það að þú ert vongóð/ur eða bjartsýn/n?

- Hvernig stillir þú af jafnvægi á milli þess sem er raunhæft eða ekki raunhæft á sama tíma og ert að nota bjartsýni og von um góða útkomu?

- Hvernig notar þú von og bjarstýni í krefjandi og erfiðum aðstæðum? Hvernig lýsir það sér?

Bjartsýni er einn af þeim fimm eiginleikum sem hafa hvað mest áhrif á hamingju og hefur sterka fylgni við það að finna gleði og tilgangi með lífinu.

Þegar við vannýtum eiginleikann lýsir það sér í svartsýni og sjálfsásökunum vegna mistaka en þegar hann er ofnotaður getur það birst sem of lítil tenging við raunveruleikann og ofurtrú á að jákvæðnin ein og sér sé nóg, án þess að finna tengingu við leiðir eða lausnir.

Að efla eiginleikann

Taktu eftir og minntu þig þig á það sem hefur gengið vel í krefjandi samskiptum.

Settu markmið fyrir það sem vilt að gerist þann daginn. Fyrir hvert markmið skaltu prufa að teikna upp að minnsta kosti þrjár leiðir til að ná því. Þetta geta bæði verið starfstengd markmið sem og persónuleg.

Bjóddu vinum eða samstarfsfólki pepp, hugmynd eða samtal um það sem viðkomandi er að kljást við.

Spurðu þína nánustu hvernig þeir sjá þig í samhengi við bjartsýni og von, hvenær sjá aðrir það og hvernig?

(www.viacharacter.org)


Sigríður Ólafsdóttir