Dagur #21 Fyrirgefning
„ég fyrirgef öðrum þegar þeir koma mér í uppnám eða haga sér illa gagnvart mér, ég læri af aðstæðunum og hef til hliðsjónar í komandi samskiptum við viðkomandi“
Að fyrirgefa er það að víkka út skilning okkar gagnvart þeim sem hafa gert á okkar hlut. Fyrirgefning er leið til að sleppa. Að sleppa tökum á pirringi, vonbrigðum, gremju og öðrum erfiðum tilfinningum sem tengjast viðkomandi.
Fyrirgefningin er nátengt samkennd og umburðarlyndi, því að meðtaka, skilja og sætta sig við aðra eins og þeir eru, annmarka þeirra, galla og ófullkomleika (eins og gagnvart okkur sjálfum) og gefa þeim annað, (og þriðja) tækifæri.
Eins og sagt er, að láta liðið vera liðið fremur en að vera langrækin eða hefnigjarn. Það er þroskandi ferli í mennskunni okkar að einsetja okkur að sjá þá sem gera á okkur hlut sem manneskjur og leyta uppi góðu eiginleikana þeirra.
Það er mikilvægt að blanda fyrirgefningu ekki saman við það að umbera, velja að gleyma eða sættast. Fyrirgefningin er bæði dýpra og stærra tilfinningalegt ferli.
Rannsóknir sýna að þegar pör/hjón/vinir lýsa sambandi sínu sem nánu, ánægjulegu og upplifa hollustu og nánd eru þau mun líklegri til að geta fyrirgefið þegar eru að takast á við og leysa ósætti og erfiðleika. Fyrirgefning er líka eflandi þáttur í tengslum við almenn samskipti, teymisvinnu, starfsánægju, siðferði, lausnaleit, sveigjanleika í breytingum og framleiðni á vinnustað.
Þeir sem eiga auðvelt með að fyrirgefa eru almennt hamingjusamari, upplifa sjaldnar reiði, kvíða, þunglyndi og neikvæðni gagnvart fólki.
Í hvaða aðstæðum er auðvelt fyrir þig að fyrirgefa? Hverjum í lífi þínu finnst þér auðveldast að fyrirgefa? Af hverju?
Hvernig tvinnar þú það saman hjá þér að fyrirgefa einhverjum samhliða því að þú vilt að fólk sé ábyrgt gjörða sinna?
Er það auðveldara eða erfiðara að fyrirgefa einverjum í vinnunni eða heima? Af hverju?
Hvað er ekki hægt að fyrirgefa?
Hverjir eru kostir þess að geta fyrirgefið? En gallar?
Hvernig líður okkur þegar fyrirgefum – hvaða tilfinningar koma?
Hvernig lítur fyrirgefning út gagnvart okkur sjálfun?
Við erum að nota fyrirgefningu þegar til dæmis vinnufélagi gerir á hlut okkar og við einsetjum okkur að hugsa um viðkomandi sem flókin persónuleika sem á jafnvel eftir að taka út einhvern persónulegan þroska 😉 .... frekar en að stimpla hann sem alvonda manneskju.
Verið erum að nota fyrirgefningu þegar sleppum tökum á minniháttar pirringi og ergelsi, þegar einhver svínaði á okkur í umferðinni eða þegar við upplifum að hafa verið hundsuð í samræðum og að ekki hafi veirð tekið tillit til skoðana eða tilfinninga okkar.
Við erum að nota fyrirgefningu þegar við ákveðum að fyrirgefa þeim sem höfum verið reið, sár eða örg út í of lengi.
Að efla eiginleikann
Hugsaðu um allan þann persónulega ávinning sem þú hefur grætt í kjölfar og vegna „neikvæðra“ atvika/reynslu. Skrifaðu það niður, gott að taka amk 20 mínútúr í þessa æfingu
Hugsaðu um einhvern sem þér finnst hafa gert á þinn hlut nýlega. Settu þig í spor viðkomandi og reyndu að skilja sjónarhorn og ástæður.
Gerðu lista yfir þá aðila sem þér finnst hafa gert á þinn hlut eða ert sár útí. Veldu einn aðila, farðu og hittu viðkomandi og ræddu aðstæðurnar og líðan þína eða sjáðu fyrir þér það samtal og slepptu tökunum og fyrirgefðu.
(www.viacharacter.org)