Dagur #22 Samvitund

samvitund.jpg

"Ég finn að ég er hluti af einhverju stærra og finn tilgang og merkingu í lífi mínu“

Hver og einn VIA eiginleiki felur í sér fleiri eiginleika, birtingarmyndir og víddir. Þegar skoðum þennan eiginleika hér sem ég vel að kalla samvitund (spirituality) fá felur hann einnig í sér þætti eins og tilgang, það að finna merkingu í lífinu, köllun, dyggðir, trú, og tengingu við það óáþreifanlega. Sumir hafa skilgreint þennan eiginleika sem leitina að tengingu við „hið heilaga“. Hið heilaga verandi það sem er blessað, heilagt eða sérstakt hvort sem það er veraldlegt eða ekki, leit að tilgangi í lífinu eða tenging við eitthvað æðra. Þetta gætum við fundið og upplifað í auðmjúkri fyrirgefningu barns, gefandi og uppbyggjandi samskiptum milli stjórnanda og starfsmanns, fallegu sólsetri, djúpstæðri reynslu í hugleiðslu eða trúarlegri athöfn eða það að sjá fórnfýsi og góðvild í samfélaginu. Samvitundin felur í sér trúna á það að til séu víddir ofar mannlegum skilningi. Það eru alls ekki allir sem tengja það við eitthvað sem myndum kalla heilagt heldur tengja það meira við tilgang og merkingu í lífinu, en VIA skilgreiningin gengur út frá því að þessir þættir séu nátengdir.

Skilgreining hvers og eins og tenging við samvitundina móta hegðun okkar og veita okkur ró og trú.

Samvitundin er til bæði innan einstaklingsins, samband hans við hið heilaga, hvað sem það er fyrir honum sem og sem samupplifun og tenging manna á milli. Samvitundin er sammannleg um allan heim þó birtingarmyndin sé breytileg eftir trúarbrögðum og menningu, allir menningarheimar eiga um þetta orð, orð um þessa birtingarmynd krafts, trúar og tilgangs.

Samvitund tilheyrir flokki eiginleika sem eiga það sameiginlegt að byggja upp tengsl og tilgang, aðrir eiginleikar í þessu flokki eru þakklæti, bjartsýni, húmor og það að kunna að meta fegurð og snilld í kringum okkur.

Rannsóknir sýna að þegar við höfum ríka samvitund finnum við frekar tilgang með lífinu, ró og bjartsýni, sem svo aftur stuðlar að almennri vellíðan. Unglingar sem upplifa sig með sterka samvitund ná að hafa betri sjálfsstjórn og sýna betri námsárangur. Samvitundin hefur sterka tengingu við eiginleikana auðmýkt, fyrirgefningu, þakklæti, góðvild, bjartsýni, ást og eldmóð.

  • Hvaða jákvaða hlutverki gegnir samvitund eða upplifun á tilgangi í þínu lífi? (sambönd, heilsa, árangur, samfélagsleg þátttaka)

  • Hvernig er tengingin á milli samvitundar og trúariðkunar hjá þér?

  • Hvort ert þú þeirrar skoðunar að það sé ein rétt leið fyrir alla til að iðka sína samvitund eða trú, eða að hver og einn finni og fari sína leið í þeim efnum?

Að efla eiginleikann

  • Taktu þér tíma og vertu í ró og næði, bara með sjálfri/um þér á stað sem er sérstakur fyrir þér eða með hlut sem hefur djúpa og sérstaka merkingu fyrir þér.

  • Notaðu oftar þær leiðir sem henta þér til samvitundar svo sem bænir, hugleiðslu, sækja í náttúruna eða það áþreifanlega eins og að veita kærleika og sýna samkennd í verki.

  • Þegar tekst á við erfiðleika, áföll eða áskoranir leggðu þig fram við að leyta að dýpri merkingu eða tilgangi þess sem er að gerast.


Sigríður Ólafsdóttir